Skip to content

Instantly share code, notes, and snippets.

@pallih
Created February 3, 2014 21:32
Show Gist options
  • Save pallih/8792836 to your computer and use it in GitHub Desktop.
Save pallih/8792836 to your computer and use it in GitHub Desktop.
SVEF verðlaunin, 2014 og opin gögn
Eins og allir vita þá unnum við Gunni Þorvalds ein af verðlaunum SVEF, seinasta föstudag fyrir vegvisir.is.
Afhendingin fór fram í Gamla Bíói og það var nóg af öli í boði. Sérstakur gestur var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún flutti ágæta ræðu um (m.a.) að hún væri mjög svo hrifin af þessum bransa og að hún vildi gjarnan fá leiðbeiningar frá þeim sem í honum starfa um hvernig hann gæti dafnað.
Við Gunni vorum tilfefndir í þremur flokkum af fjórtán og ég ætla ekkert að ljúga um það að ég bjóst við því að vinna í það minnsta einn þeirra. Ég hafði hugsað um það í strætóferðum dagana á undan hvað ég ætlaði að segja í þakkarræðunni. Þar átti helst að koma fram að Gunni hefði farið til Kosta Ríka fyrir nokkru síðan að fagna því sem allir vissu að yrði (VIÐ VINNUM!).
En það var semsagt öl í boði og mér leiðist almennt margmenni, þannig að þegar kom að því að við loksins unnum, þá hafði ég sett í mig þrjá bjóra og það var kominn svolítill dólgur í mig.
Þannig að ætlun mín um að þakka fyrir okkur og minnast á að Gunni væri á Kosta Ríka fór fyrir lítið. Í staðinn ákvað ég að ávarpa ráðherrann og brýna fyrir henni að ríkið ætti að leggja sig fram um að bæta aðgengi að upplýsingum sem ríkið á, viðheldur og framleiðir.
Mér finnst þetta í alvöru vera mikilvægt. Það er mikilvægt að það sem ríkið (við) býr til sé sett fram á þann hátt að hægt sé að nýta það. Vegvísir er algjörlega byggður á vegaskrá Vegagerðarinnar og þótt hún sé sett fram á einkar lélegan hátt á vegagerdin.is (og það var það sem kveikti í okkur að gera Vegvísinn) þá voru gögnin í það minnsta til.
Sumt sem ríkið gerir er stórfínt en sumt er algjör steik. Fasteignir ríkisins heldur t.d. úti vefsvæði (fastrik.is) þar sem upplýsingar um fasteignir í eigu ríkisins eru myndir af fasteigninni. Af hverju ekki fasteignamat? Kaupdagur? Kaupverð? Stærð?
Ég get ímyndað mér allskonar hluti og forrit sem gætu nýtt slíkar upplýsingar og ég veit að það er til fólk þarna úti sem gæti svo ímyndað sér einhverja allt aðra notkun, forrit eða whatever, með slík gögn.
Málið er að þegar þú opnar á gögn þá birtist allskonar fólk sem gerir allskonar hluti sem engum sem bjó til gögnin til hafði dottið í hug að hægt væri að gera.
Ég held, og veit, að þessu verði ekkert breytt á einni nóttu. En það má færa hlutina til betri vegar. Og til þess að það gerist verða þau sem við kjósum til áhrifa að skilja og átta sig á mikilvægi þess, og við verðum að minna þau á það.
Þess vegna sé ég ekkert eftir dólgnum sem kom í mig þarna á föstudaginn og vona eiginlega að hann hverfi aldrei.
Sign up for free to join this conversation on GitHub. Already have an account? Sign in to comment